Ég hef mjög lengi velt fyrir mér hver hin rétta hæð fyrir loftljós væri. Sama hvað ég leitaði á netinu fannst mér lítið um svör. Eftir mikla leit rakst ég loksins á snilldar grein sem fer mjög ítarlega yfir hver reglan væri með loftljós og langar mig því að deila henni með ykkur hérna afþví ég er örugglega ekki sú eina sem hef spáð í þessu.

Yfir borðstofuborðið – Það mikilvægasta þegar valin er hæð á loftljósi yfir matarborð er að það skyggi ekki á höfuð þess sem situr á móti þér. Ef þú ert með eitt stórt ljós er mælt með að hafa það 60-75sm frá borði. En aftur á móti þegar ljósið er lítið er í lagi að það fari alveg niður í 55-65sm frá borðkanti. Einnig er talað um að ef þig langar að raða nokkrum ljósum að hafa helst 80sm á milli þeirra til að birtan nýtist sem best.

Yfir eldhúsbekk – Þegar velja á ljós yfir eldhúsinnréttinguna er mælt með að hafa frekar nokkur smærri ljós og raða þeim jafnt yfir bekkinn. Hérna er mikilvægt að geta athafnað sig standandi við borðið og því er 75-80sm yfir borðkant fullkomin hæð.

Yfir sófaborðið – Það er engin regla þegar kemur að sófaborði en þó skal varast að hafa ljósin ekki of neðarlega. Hérna er líka flott að hafa fleiri en eitt ljós saman og ef ljósin lýsa bæði upp og niður er það mjög mikill kostur. Ljós sem lýsa líka upp veita mun nátturulegri birtu og því fullkomin til að birta upp stofuna. 

Ég vona að þetta gagnist ykkur sem eruð í loftljósahugleiðingum. En svo mæli ég líka með að taka ljósin með ykkur heim og máta við borðið afþví ljósið gæti litið allt öðruvísi út þegar það er komið í ykkar eigið umhverfi.

Hvad er den perfekte lampehøjde?

Upphaflega umfjöllun finnið þið hér en myndirnar fékk ég að láni af Pintarest